Search
  • Hormónajóga

"Ég á langa og erfiða fjölskyldusögu í tengslum við krabbamein og tek ekki þessa áhættu"


"Ég er sérleg áhugamanneskja um breytingaskeiðið og 45 ára var ég byrjuð að huga að því hvernig best væri að undirbúa sig fyrir það. Við förum allar, reyndar öll, í gegnum breytingaskeiðið á einhverjum tímapunkti en það er mismunandi hvernig það hittir okkur,“ segir Rakel Fleckenstein Björnsdóttir, jóga- og Qigongkennari sem ætlar að fræða okkur aðeins um nálgun hormónajóga á breytingaskeiðið.


Sumar skauta léttilega í gegnum það á meðan aðrar eru undirlagðar. Þær eru óteljandi sögurnar af konum sem upplifa hræðilega tíma, miklar breytingar og í langan tíma, allt upp í 12 ár. Upplýsingarnar sem fyrir liggja um möguleg einkenni breytingaskeiðsins eru mjög takmarkaðar. Einkennin eru nefnilega mun fleiri en okkur grunar.


Ég á langa og erfiða fjölskyldusögu í tengslum við krabbamein og tek ekki þessa áhættu.

„Og úrræðin eru fá, annað hvort bítur þú á jaxlinn, mögulega í 12 ár, eða tekur inn hormónalyf með öllum þeim aukaverkunum sem þeim fylgja. Þetta síðara hugnaðist mér ekki. Ég á langa og erfiða fjölskyldusögu í tengslum við krabbamein og tek ekki þessa áhættu. Ég er samt alls ekki á móti hormónalyfjum. Sumar þurfa á þeim að halda í einhvern ákveðinn tíma og hormónajógað getur svo hjálpað þeim að komast af lyfjunum. Hormónajóganu fylgja engar þekktar aukaverkanir, bara bætt heilsa og ávísun á yndislegt breytingaskeið.“


Rakel hefur alltaf stundað einhverjar íþróttir og verið meðvituð um heilbrigt líferni. Lengi

vel æfði hún sund en svo tók jógaáhuginn við og átti hug hennar, sem og lífsorkuæfingarnar Qigong.


„Árið 2018 frétti ég af hormónajóga og höfundi þess Dinah Rodrigues frá Brasilíu og fór til Þýskalands og nam fræðin hjá henni. Í kjölfarið þýddi ég og gaf út bók eftir Dinah um hormónajóga fyrir konur á breytingaskeiði og byrjaði að kenna í janúar 2019. Nemendur mínir skipta hundruðum og árangur þeirra sem halda áfram og sýna þolgæði er alveg magnaður. Ég er eini kennarinn á Íslandi sem hef réttindi til að kenna hormónajóga. “


Margir sofa alltof lítið og státa sig jafnvel af því

Rakel útskýrir fyrir okkur að Landlæknir ráðleggi fólki að hreyfa sig í 30 mínútur á dag til að bæta svefn. Svefninn skiptir okkur öllu máli. Margir sofa alltof lítið og státa sig jafnvel af því. Þetta er kolröng þróun og mikilvægt að snúa þessu við. Eitt það fyrsta sem fólk finnur fyrir þegar það stundar hormónajóga er bættur svefn. Um leið og svefninn lagast og svefngæðin verða betri verðum við andlega sterkari og þá tekst okkur betur að takast á við dagleg verkefni og gera það sem þarf.


„Í hormónajóga þarf þolgæði. Það er ekki pilla sem tekin er inn og það er heldur ekki eins skiptis. Hormónajóga er æfingar sem þarf að gera reglulega, helst daglega og helst á morgnana. Seinnipart dags eða á kvöldin gerum við svo slökunaræfingar og náum okkur niður eftir daginn. Það er mjög mikilvægt að geta slakað á. Ef maður kann það ekki þá þarf maður að læra sérstakar æfingar til þess. Það er eiginlega alveg sama hvað við gerum, ef við ekki slökum á inn á milli og drögum úr streitu, þá virkar ekkert annað. Hormónaóga, og Qigong, kemur sterkt þar inn. “