top of page
Search

Þakklæti efst í huga um áramót!


Áramót 2022-2023!


Á áramótum finnst mér gott að staldra aðeins við og fara yfir árið sem er að líða. Mér finnst gott að þakka fyrir það sem vel gekk og vel var gert og læra af hinu. Líta svo fram á veginn og skoða hvernig hægt er að byggja ofan á það sem þegar er komið eða gera eitthvað alveg nýtt. Maður er aldrei of gamall til að gera eitthvað nýtt og stundum er bara bráðnauðsynlegt að taka skrefið. Snúa alveg við blaðinu.


Það er þrennt sem stendur upp úr hjá mér á árinu 2022:


Góð heilsa og endurmenntun


Vegna anna var ég ekki með nein námskeið, hvorki í hormónajóga né í Qigong á haustönninni. Ég nýtti hins vegar tímann vel og sótti námskeið á netinu bæði í kínverskum lækningum og í Qigong með Daisy Lee í formi sem kallast Wuji Hundun. Magnað form sem ég er að þróa mig í og mun án efa miðla til ykkar þegar fram líða stundir. Hormónajógaæfingarnar eru fastur liður hjá mér á morgnana. Ég finn ótrúlega mikinn mun á mér, bæði andlega og líkamlega, ef ég læt of langan tíma líða milli æfinga. Æfingarnar taka ekki nema 35 mínútur og þann tíma get ég gefið mér fjórum til fimm sinnum í viku.


Við fjölskyldan erum öll við góða heilsu og ég er dugleg að bæta við mig þekkingu og fyrir það er ég þakklát.


Nuddnám

Ég hóf nám í heilsunuddi við Heilsunuddbrautina í Fjölbraut í Ármúla í janúar og hef því lokið tveimur önnum með góðum árangri. Ég er mjög spennt fyrir því að tengja nuddið og hormónajógað saman og trúi að með því að tvinna þetta tvennt saman getur útkoman bara orðið enn stórkostlegri . Ég er nú þegar byrjuð að bjóða upp á svæðanudd þar sem áherslan er á innkirtlakerfið og hormónastarfsemina og á öllum námskeiðum hjá mér eftir áramótin mun einn frír tími í svæðanuddi fylgja með frítt, hvort sem er í hormónajóga eða Qigong.


Ég tók skrefið, fór að læra meira og bæta við mig enn meiri þekkingu og fyrir það er ég þakklát.


Dýrafár

Dóttir mín opnaði dýrasnyrtistofu hérna heima hjá okkur í apríl, María Dýrasnyrting. Ég hef verið henni innan handar við að koma þessu upp og hef verið til staðar í blíðu og stríðu. Í jólaösinni tók ég fullan þátt og vann í 11 tíma á dag við að þvo og blása - og nudda hunda :-) af öllum stærðum og gerðum. Það er ekki sjálfgefið að geta stigið inn af svo miklum krafti í vinnu sem er bæði andlega og líkamlega erfið og þakka ég það reglulegri ástundun hormónajóga að ég skyldi yfirhöfuð hafa getað þetta og notið þess og haft einstaklega gaman af.


Dóttir mín blómstrar sem aldrei fyrr og það er mikið líf á heimilinu- sannkallað dýrafár. Fyrir það er ég þakklát.


Árið 2023

Það er með mikilli tilhlökkun sem ég starta námskeiðunum mínum í hormónajóga og Qigong að nýju strax í janúar. Byrjendanámskeið og upprifjunarnámskeið (morguntímar) í hormónajóga fyrir konur og tímar í Qigong. Upplýsingar um námskeiðin finnur þú hér. Námskeiðin verða eingöngu online á Zoom að þessu sinni. Þannig gefst konum úti á landi og konum sem búsettar eru erlendis kostur á að vera með og allir tímar eru teknir upp þannig að hægt er að horfa þegar manni hentar á meðan á námskeiðinu stendur. Við á höfuðborgarsvæðinu losnum við umferðina sem er ansi þung á álagstímum, sér í lagi yfir háveturinn þegar allra veðra er von, og getum haft það kósý heima.


Innifalið í námskeiðunum að þessu sinni er sérstakt tilboðsverð á hormónajógabókinni og einn frír tími í svæðanuddi.


Ég er þakklát fyrir ykkur og hlakka til að sjá ykkur á nýju ári. GLEÐILEGT NÝTT ÁR!


17 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page