top of page
Search

Eiga hormónajóga líf sitt að launa

Updated: Aug 26, 2023

Hjónin Adéla Bavlšíková og Petr Bavlsik eru hormónajógakennarar og búa í Prag í Tékklandi. Saga þeirra um hvernig hormónajóga bjargaði hjónalífi þeirra er einstök og því hef ég fengið góðfúslegt leyfi hjá þeim til að birta hana.

Saga Adéla

Adéla er 39 ára og er sem stendur í fæðingarorlofi en skipuleggur tíma og námskeið í hormónajóga í Tékklandi ásamt góðu samstarfsfólki. Hún og Petr reka saman jógastöð í miðborg Prag þar sem eingöngu er kennt hormónajóga, hún kennir hormónajóga fyrir konur og sykursjúka og hann fyrir karla. Meira en 5000 konur hafa sótt námskeiðin hjá henni og fjöldi karla á námskeiðum hjá Petr eykst ár frá ári.


Adéla segist vera mjög hamingjusöm í dag og hún nýtur þess að vera með litlu dóttur sinni sem sé lítið kraftaverk því hún átti ekki að geta eignast börn. Allt frá því að hún byrjaði á blæðingum 15 ára gömul var tíðahringurinn í miklu rugli og hún stöðugt undir læknishendi. Æxlunarfæri hennar þroskuðust hægar en eðlilegt mátti telja og ekki alveg samkvæmt kúrvu svo 14 ára gömul var hún komin á hormónalyf sem mæður sumra skólasystra hennar voru að taka vegna tíðahvarfa. Þar með hófst mikið lyfjamaraþon og tíðahringurinn var knúinn áfram af lyfjum. Hún fór síðan á pilluna og tók hana í 10 ár samkvæmt læknisráði. Á þessu 10 ára tímabili hafði hún kvalafullar blæðingar á 28 daga fresti, fékk mikið mígreni, svo mikið að blindrastafur hefði komið sér vel og hún fann fyrir doða í höndunum. Það var svo í kringum 22 ára aldurinn sem hún breyttist úr glaðværu Adéla í þunglyndu Adéla. Hún segir þetta hafa verið mjög skrítinn stað að vera á. Hún óskaði þess að flugvélin sem hún var í myndi hrapa og hana langaði til að hoppa út úr bíl á ferð. Minnið gaf sig og stundum mundi hún ekki hvað hún hafði verið að gera kvöldið áður. Nýr læknir gaf henni svo nýja pillu sem hentaði betur en hún varð að hætta á henni þegar í ljós kom að hún væri í áhættuhópi vegna hættu á heilablóðfalli. Hún var 26 ára þegar þarna var komið sögu og staðan mjög slæm. Blæðingarnar komu ekki þegar hún fékk ekki pilluna og hún hafði ekki egglos. Hún var greind með PCOS (fjölblöðrueggjastokkaheilkenni) og aukið prólaktín. Henni var sagt að hún gæti líklegast ekki eignast barn nema með aðstoð. Heimurinn hrundi.


Adéla var ekki sátt við þessa niðurstöðu því hana hafði alltaf langað til að eignast barn. Hún hófst handa við að leita sér upplýsinga og fann Dinah Rodrigues og hormónajóga sem hún segir að hafi bjargað lífi sínu. Hún tók til við að iðka æfingaröðina og segist glöð hafa misst:

Mígrenið, þunglyndið, bólur, fyrirtíðaspennu og PCOS en fengið: hormónastarfsemi sem var í jafnvægi, egglos, blæðingar, gott skap og nokkrum árum síðar... dásamlega dóttur.


Saga Petr

Hann segir að leiðir þeirra Adéla hafi legið saman þegar hann hafði verið í stjórnunarstarfi á diskóteki í Prag um 13 ára skeið og unnið langar vaktir og yfirleitt á nóttunni. Starfinu hafi fylgt mikil streita og ábyrgð sem varð til þess að hann var hlaðinn streitu og innbirgðri reiði. Hann svaf illa. Náði að hámarki þriggja tíma samfelldum svefni og átti erfitt með að festa svefn því allt hringsnerist í höfðinu á honum. Hann gat engin veginn haldið í við Adéla sem var allt í einu farin að blómstra og orðin full af orku eins og "supernova" eins og hann orðar það. Hversu oft hafði hann ekki eyðilagt fyrir þeim sameiginlegar stundir sem áttu að vera gæðastundir með áhugaleysi sínu, skapvonsku og þreytu. Allt var of mikið fyrir hann og kynlífið í molum. Honum fannst hann ekki vera að standa sig og löngunin var engin. Hann vildi frekar leggjast á sófann og vorkenna sjálfum sér. Svo kom að því að hann fann að svona gengi þetta ekki lengur, hann yrði að gera eitthvað í sínum málum og ákvað að prófa hormónajóga fyrir karla. Hann fann strax mun á sér eftir nokkra daga og þá sérstaklega á svefninum. Loksins gat hann sofið alla nóttina. Hann fann að hann varð orkumeiri og lífið fékk einhvern veginn annan lit. Og kynlífið! Það að njóta samlífis með konunni sem hann elskaði varð allt annar kapituli. Hann segir hjónalíf þeirra hafa tekið gegngerum breytingum og þakkar það reglulegri ástundun hormónajóga. Æfingarnar virka gegn fjölda vandamála sem streituhlaðnir nútímakarlmenn eru að takast á við. Petr segir það sína reynslu að erfitt sé að ræða þessi mál en það þurfi að gera það til að hægt sé að takast á við þau. Hann mælir með hormónajóga fyrir alla karlmenn.

54 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page