top of page
Search
Writer's pictureHormónajóga

Erum við ofurseldar? Formáli Margrétar

Updated: Aug 26, 2023

Formáli


Margrét Jónsdóttir Njarðvík, formaður stjórnar Félags áhugafólks um breytingaskeiðið, skrifaði formálann í bókinni Hormónajóga - leið til að endurvekja ho

rmónabúskap þinn, sem er bæði áhugaverður og stórskemmtilegur:


„Guð sér um líkama þinn fram að fimmtugu en svo tekur þú við,“ segir einhvers staðar.

Þú sem nú situr með þessa bók ert einmitt í þann mund að stíga skref í þá átt að axla ábyrgð á heilsu þinni. Þú ert líklega á fimmtugsaldri og vilt öðlast meiri lífsgæði á því misskemmtilega umbreytingatímabili sem breytingaskeiðið er eða þá að þú ert mun yngri og langar til að eignast langþráð barn.


Þú kannt jafnvel að vera haldin sjúkdómi sem nefnist fjölblöðrueggjastokkaheilkenni (PCOS) Eitt er víst, þú ert með réttu bókina í höndum. Höfundur hennar heldur því fram að með því að stunda það jóga sem hér er kennt hafir þú jákvæð áhrif á kvenhormónabúskapinn í líkamanum. Magn estrógens í líkamanum aukist og ójafnvægi á kvenhormónum minnki. Er það satt? Það hef ég ekki hugmynd um en ég er algerlega sannfærð um að það að iðka jóga eins og hér er lýst getur ekki gert þér annað en gott. Ef það í kaupbæti eykur magn kvenhormóna eða kemur jafnvægi á þau – þá er það aldeilis frábært.


Sem formaður Félags áhugafólks um breytingaskeiðið hef ég lesið lýsingar þúsunda kvenna á líðan sinni á breytingaskeiði. Þær sem fara best og léttast í gegnum þetta tímabil eiga allar eitt sameiginlegt: Þær breyta lífsstíl sínum til hins betra.


Augljóst er að þú hefur ákveðið að taka málin í þínar hendur


og iðka jóga í stað þess að taka hormón sem flest eru unnin úr blóði úr fylfullum merum og eru ekki endilega lausnin (þó að stundum séu þau hið eina rétta). Allt fjallar þetta um hormón. Þegar þau eru í jafnvægi vitum við ekki af þeim en þegar ójafnvægi knýr dyra þá erum við ofurseldar. Allar konur þekkja ofurviðkvæmni og pirring rétt fyrir blæðingar – nokkuð sem við áttum okkur ekki á fyrr en síðar. Kvenlíkaminn er ofurseldur öldum sem við ráðum ekki við. Tíðablóðið flæðir án þess að við getum stjórnað því og hið sama er að segja um hitakófin sem taka við með breytingaskeiðinu. Þau taka af okkur stjórnina og það eina sem er í boði er að læra að stíga ölduna og safna að okkur verkfærum til að gera aðstæður okkar sem bestar.


Auk þess lífsstíls sem einkennist af hreinni fæðu, hreyfingu utandyra, nægum svefni og góðum samskiptum þá er hormónajóga nýjung sem getur hjálpað konum með hormónaójafnvægi. Þessi tækni er komin til Íslands fyrir tilstuðlan Rakelar Fleckenstein Björnsdóttur, þýðanda bókarinnar. Hún fór til Þýskalands og


lærði hormónajóga af sjálfri Dinah Rodrigues, konunni sem þróaði hormónajóga og er gangandi auglýsing fyrir þau góðu áhrif sem þessi tegund jóga hefur á líkama og sál. Sjálf hef ég stundað jóga frá 1992 og merki að höfundur bókarinnar tekur til sín sitt lítið af hverju úr hinum mörgu greinum jóga sem standa til boða. Hvort það virkar skal ég ekki segja þótt ég hafi fulla trú á því. Nú þegar hafa rannsóknir sannað mátt hugleiðslu á taugakerfi okkar og öll vitum við hve mikil áhrif góðar venjur hafa á líf okkar almennt. Nú er þitt að prófa og deila með okkur hinum áhrifunum.


Gangi þér vel!


Indlandi 10. desember 2018.

Margrét Jónsdóttir Njarðvík, formaður stjórnar Félags áhugafólks um breytingaskeiðið




















35 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page