Search
  • Hormónajóga

Hormónajóga í hnotskurn

Updated: Oct 20, 2021

Hormónajóga er heimsþekkt og viðurkennt jógameðferðarform til að örva og endurvekja hormónabúskap líkamans á náttúrulegan hátt. Höfundurinn, Dinah Rodrigues, þróaði formið með stuðningi lækna, sjúkraþjálfara og jógakennara og byggir á margra ára reynslu sinni af jóga og Qigong. Í Brasilíu er formið viðurkennt sem endurhæfingarform og hjá konum er það valkostur við hormónalyfjameðferð. Æfingaröðin hentar konum sem af heilsufarsástæðum geta ekki notað hormónalyf, konum sem vilja hætta að nota hormónalyf og konum sem kjósa að vera án lyfja. Sá hópur fer ört vaxandi. Meðferðin kom hingað til lands árið 2018.


Höfundurinn, Dinah Rodrigues, er 94 ára og býr í Sao Paulo í Brasilíu. Hún nam heimspeki og sálfræði við háskólann í Sao Paulo og hefur tileinkað líf sitt jóga í meira en hálfa öld. Hún er einn þekktasti jógaþerapisti í heimi og eftir hana liggja þrennslags jógameðferðarform: Hormónajóga fyrir konur, streitulosandi hormónajóga fyrir karla og hormónajóga fyrir sykursjúka. Bækur Rodrigues um hvert þessara æfingaforma hafa verið þýddar á fjölda tungumála og eru bækurnar um streitulosandi hormónajóga fyrir karla og hormónajóga fyrir sykursjúka væntanlegar í einni bók á næsta ári.

Bókin um hormónajóga fyrir konur Hormónajóga – leið til að endurvekja hormónabúskap þinn kom út í íslenskri þýðingu vorið 2019 og kom Rodrigues til Íslands af því tilefni.


Hormónajóga fyrir konur

Hormónajóga er ákveðin æfingaröð sem samanstendur af hefðbundnum hathajógastöðum, öflugri öndunartækni og orkutækni sem á rætur sínar í kínversku lífsorkuæfingunum Qigong. Í hormónajóga fyrir konur byggist æfingaröðin á æfingum þar sem unnið er með eggjastokkana, skjaldkirtilinn, heiladingulinn og nýrnahetturnar en æfingarnar hafa einnig áhrif á aðra kirtla og önnur líffæri, sogæðakerfið og stoðkerfið. Jógastöðurnar í hormónajóga eru hefðbundnar hathajógastöður en þær eru aðlagaðar til að hægt sé að örva líffærin/kirtlana sem verið er að vinna með hverju sinni. Öndunartæknin er einnig frábrugðin því sem þekkist og tíðkast í hathajóga.


Æfingarnar

Jógastöðurnar (Asanas) eru flestar dýnamískar og örvandi og hafa áhrif á vöðva, líffæri, taugakerfi og innkirtla. Í stöðunum er öflugri öndunartækni, Bhastrika k.d. eða óhefðbundinni Ujjayi, beitt sem virkar eins og djúpt nudd á kirtla og innri líffæri.

Bhastrika k.d. (fýsibelgsöndun) er kröftug öndunartækni þar sem andað er í gegnum nefið eingöngu með sterkri aðkomu kviðvöðva. Önduninni svipar til eldöndunar (Kapalabhati) en er ekki eins. Kviðsvæðið er virkjað en slakað á brjóstsvæðinu. Þessi tækni fyllir líkamann pranískri orku, hjálpar honum að afeitra sig og styrkir ónæmiskerfið. Í æfingunum nudda kviðvöðarnir eggjastokkana og líffærin í kviðnum sem stuðlar að heilbrigði mjaðmasvæðisins og grindarbotnsins og hjálpar einnig til við að losa um spennu og andlegar hindranir. Bhastrika K.D. er notuð í næstum öllum æfingunum.

Ujjayi öndun (ýkt haföndun). Hér er aðeins andað í efri- og miðhluta lungnanna. Kviðurinn er hreyfingarlaus að mestu. Við inn- og útöndun er hálsinum lokað að hluta þannig að það þrengist að flæði lofts. Þessi tækni örvar skjaldkirtilinn, styrkir hjartavöðvann, hreinsar lungun og fjarlægir slím úr barka og berkjum. Í Hormónajóga er þessi öndun gerð mjög ýkt. Ujjayi kemur aðallega fyrir í æfingum sem tengjast skjaldkirtlinum.

Lásar eða Bandhas. Í jóga eru þrír lásar eða bandhas. Þeir eru allir notaðir í hormónajóga en hlutverk þeirra er að stýra flæði orkunnar. Lásarnir örva blóðrásina, hafa góð áhrif á meltingar- og taugakerfið og örva súrefnisupptöku líkamans. Á orkustiginu er um að ræða meðvitaða stjórn á prana eða lífsorku, hreinsun orkubrauta og betra flæði orku í líkamanum. Þessir lásar eru:

Mulabandha sem er vöðvasamdráttur í grindarholi (grindarbotnsæfingin góða). Mulabandha bætir blóðflæði á grindarbotnssvæðinu, dregur úr líkum á gyllinæð, bætir ástand æxlunarfæra og skapar jafnvægi í sympatíska og parasympatíska taugakerfinu. Á orkustiginu styður Mulabandha rétt flæði orku á grindarbotnssvæðinu og virkar róandi á hugann. Uddiyana bandha snýst um að mynda lof