Search
  • Hormónajóga

Hvað er Qigong og hver er munurinn á Qigong æfingum og jóga æfingum?

Þórdís Filipsdóttir, eigandi heilsumiðstöðvarinnar Tveir heimar, leiðir okkur í allan sannleikann um það í grein sem birtist á Fésbókarsíðunni Qi-Gong / Tai-Chi í október 2015. Greinin er birt með góðfúslegu leyfi Þórdísar.Hvað er Qigong?

Qigong er hið minnsta 4000 ára gamlar kínverskar orkuæfingar sem sameina hreyfingu, öndun og einbeitingu (vitund). Þær voru upphaflega þróaðar af kínverskum læknum og Qigong áhugamönnum. Þá og enn er þeim ætlað að lækna og koma í veg fyrir sjúkdóma.

Æfingarnar hafa um aldir verið í stöðugri þróun og menn hafa iðkað þær víða um heim. Hafa þær hjálpað ótal, ótal mörgum. Vestrænar vísindarannsóknir staðfesta meðal annars að iðkun Qigong lækkar blóðþrýsting og hægir á öldrun líkamans.

Æfingarnar

Æfingarnar eru miserfiðar. Þær ráðast af getu hvers og eins. Þá skiptir tilgangurinn auðvitað höfuðmáli. Eftir hverju sækjast menn? Hvað vilja þeir styrkja og bæta? Eða hindra?

Qigong æfingarnar greinast í þrjá flokka: Æfingarnar sem við kennum í Tveim Heimum kallast á ensku Medical Qigong – heilsu Qigong. Markmiðið er að lækna/heila líkamann eða ákveðna hluta hans sem eru ekki í jafnvægi. Með æfingunum er lögð áhersla á að efla orkuhringrás líkamans ( Qi circulation) og brautir orkunnar sem kínversk læknisfræði segir liggja um líkama okkar. Við hlið heilsu-Qigong æfinganna og af sömu rót er kínverska bardagalistin, þjóðaríþrótt Kínverja. Heilsu-Qigong æfingarnar eru samspil afar mjúkra hreyfinga, agaðrar hugsunar og agaðrar öndunar. Allt helst í hendur og æfingarnar leita hins týnda jafnvægis, hvort sem það snertir huga eða líkama.

Fyrir hvern er Qigong?

Æfingarnar henta þeim sérlega vel sem glíma við stoðkerfisvandamál, háan blóðþrýsting, stress, gigt, liðverki, vöðvaverki og fleira. Þær nýtast einnig vel þeim sem vilja bæta einbeitingu sína. Við mælum sérlega með heilsu- Qigong æfingunum fyrir þá sem eru með athyglisbrest af einhverju tagi. Markmiðið er að samhæfing náist á milli hugar og líkama, því meiri samhæfing því meiri líkur á jafnvægi. Við æfingarnar fær hugurinn ákveðin verkefni að glíma við, þær eru því góð aðferð til hugleiðslu. Það tekur nokkurn tíma að aga hugann vegna þess hve dómhörð og einbeitingarlaus við getum verið. Auðvitað erum við misjöfn, en þarna eru ljón í veginum og flest þurfum við að ýta þeim til hliðar í byrjun – mikilvægt er að tileinka sér þessar nýju æfingar með því að sýna sjálfum sér kurteisi. Verkefnin eru mismunandi eftir því hver æfingin er. Hver einasta æfing hefur læknandi/heilandi tilgang og til að tryggja hámarks virkni fylgir hugurinn athöfninni. Á haustin þurfa lungun t.d. að aðlaga sig kaldara lofti en venjulega. Við hámark árstíðaskiptanna eru þau viðkvæmari en vant er - og við kvefumst auðveldlega. Þegar vetrar og kólnar í lofti þá lækkar líkamshitinn og nýrun og blaðran erfiða meira en venjulega sem getur skapað bakverk eða aukið á gamlan bakverk. Hjartað er viðkvæmt á sumrin og slær stundum hraðar sem getur t.d. valdið svefntruflunum.

Kínverjum varð snemma ljóst að líffæri mannsins laga sig að árstíðum. Sumar Qigong æfingar eru líkar hreyfingum ákveðinna dýrategunda, t.d. hreyfingum bjarnarins og dádýrsins. Aðrar eru þess eðlis að þær laga líkamann að komandi árstíð. Æfingarnar eru margar og Qigong kerfin sem halda þeim saman eru mörg þúsund. Innan kerfanna getur fjöldi æfinganna verið misjafn og einnig ræðst það af kennaranum hve oft hver æfing er gerð eða hve æfingahringurinn tekur langan tíma, 10, 20 eða 40 mínútur.


Hver er munurinn á Qigong æfingunum og Yoga æfingunum?

Meginmunurinn á Qigong og Yoga er sá að við iðkun Qigong er hreyfingin mjúk og stöðug. Í Yoga skapast spenna í teygjum en hreyfingin er oftast ekki stöðug. Yogastöður skapa andlega umbreytingu í líkamanum sem getur síðan haft heilandi áhrif á efnislíkamann. Qigong hreyfingar skapa orkuflæði í líkamanum sem læknar efnislíkamann og hefur síðan áhrif á andann eða manngerðina. Hé