top of page
Search

Jóga og Jóga nidra

Updated: Aug 26, 2023

Þar sem ég sit við þýðingar á hormónajógabók nr. 2, vinnuheiti: Hormónajóga fyrir karla og hormónajóga fyrir sykursjúka, og googla eins og vindurinn, rekst ég á þennan frábæra pistil Guðrúnar Arnalds-Darshan sem birtist á mbl.is 22. október 2019 um mikilvægi jóga og jóga nidra. Við notum jóga nidra í hormónajóga og því á þessi pistill mjög vel við hér.

"Að muna hver þú ert

Þegar ég hef mikið að gera kemur það fyrir að ég hætti að muna hvað ég er sterk og stöðug. Ég fer að samsama mig með streitunni og öllum þessum verkefnum sem verður að sinna NÚNA. En sem betur fer hef ég fengð góða þjálfun í jógaiðkuninni minni og þegar ég sest niður við að hugleiða man ég aftur “hver ég er”. Þessi stutta stund sem ég man - hjálpar mér við að takast á við álagið af meira æðruleysi.

Þegar við búum við mikið álag, langvarandi eða skammvinnt og þegar við lendum í áföllum þá eru það eðlileg viðbrögð líkamans að fara í streituástand, að frjósa eða búa sig undir átök, líkt og það væri hættulegt dýr að ráðast á okkur. Við erum byggð til þess að lifa af og líkaminn setur allt sem hann á í það að hjálpa okkur út úr hættunni. Þetta er nauðsynlegur eiginleiki fyrir lífshættulegar aðstæður. En líkaminn gerir ekki greinarmun á lífshættu og álagi eða áfalli.

Regluleg iðkun jóga og hugleiðslu hjálpar okkur að takast á við áföll og álag á áreynslulausari hátt. Með meiri meðvitund og nærveru með okkur sjálfum. Þegar áfallið eða mesta álagið er liðið hjá er mikilvægt að hafa réttu tækin til að komast aftur í jafnvægi. Að losa um líkamleg eða andleg “spor” sem eftir sitja eftir aðstæðurnar sem upp komu svo þau hafi ekki áhrif á heilsu okkar og andlega líðan í framtíðinni. Áhrifin sem stafa af streitu eru heilsufaraldur okkar tíma. Hæfileikinn til að bregðast við hættu er mikilvægur til að lifa af en þegar streita verður krónísk þá getum við þurft að takast á við heilsuvandamál eins og bólgur, háan blóðþrýsting, meltingarvandamál, andleg og tilfinningaleg vandamál. Það eru til ýmis konar form af jóga. Jóga nidra er markviss, umbreytandi djúpslökunariðkun. Í sinni enföldustu mynd, hjálpar jóga nidra að róa niður taugakerfið með því að kveikja á slökunarviðbragðinu og losa um spennu í líkama, huga og tilfinningum á kerfisbundinn hátt.


Að virkja slökunarviðbragðið Þegar streita kemur upp hækkar blóðþrýstingurinn, við förum að anda hraðar. Meltingarkerfið og önnur mikilvæg kerfi hafa ekki lengur forgang. Þetta er gagnlegt þegar við erum að glíma við hættulegar aðstæður en ef streituástandið varir í langan tíma getur það orðið að heilsuvandamáli. Dr Herbert Benson, sem setti fram heitið “slökunarviðbragð” sagði: “Bara það að sitja í rólegheitum, til dæmis að horfa á sjónvarp er ekki nóg til að snúa þessu ferli við. Það er nauðsynlegt að nota slökunartækni sem brýtur upp hugsanamynstrin okkar og dregur úr virkni drifkerfisins í taugakerfinu." Slökunarviðbragðið er líkamlegt ástand djúprar slökunar sem breytir líkamlegum og tilfinningalegum streituviðbrögðum okkar. Þegar slökunarviðbragðið fer af stað þá slaknar á vöðvum, öndun okkar verður hægari og sömuleiðis hjartslátturinn og bruni líkamans og blóðþrýstingur lækkar. Slökunarviðbragðið snýr við “flótta- eða árásarviðbragðinu” og gefur öllum líkamskerfum færi á að stilla sig aftur saman og vinna sem heild.

Að þróa með sér vitni Jóga og hugleiðsla kenna okkur að þróa með okkur hæfileikann til að vera eins og vitni að lífi okkar og bregðast ekki við hvað sem á dynur. Með þjálfun, förum við að geta nýtt okkur þennan hæfileika í daglegu lífi svo við getum hvílt betur í því sem kemur upp án þess að samsama okkur með aðstæðum eða viðbrögðum okkar. Þetta getur hjálpað okkur að horfast í augu við erfiðleika af meira jafnvægi og gefið okkur rými til að bregðast við ótta eða öðrum tilfinningum sem kunna að koma upp og geta átt rætur sínar í áföllum sem við höfum orðið fyrir eða erfiðum aðstæðum sem við höfum upplifað. Þannig getur hugurinn losað um hugsanir sem annars myndu sitja fastar innra með okkur. Hæfileikinn til að vera vitni er grundvallaratriði í jóga.

Jafnvægi og heilun eftir áföll Regluleg iðkun jóga og jóga nidra hjálpar okkur að endurforrita heilann svo við getum haldið jafnvægi jafnvel þegar erfiðleikar steðja að. Rætur margra líkamlegra, andlegra og tilfinningalegra vandamála er að finna í undirvitund okkar og dulvitund. Í jóga eru þessi fótspor í huga okkar kölluð “samskaras”. Ef við sinnum þeim ekki getur það haft áhrif á heilsu okkar, ákvarðanir og það hvernig við lifum lífinu. Þegar áföll eiga sér stað þurfum við oft að bæla tilfinningar og líkamlegar upplifanir til að komast í gegnum erfiðleikana. En ef þessar rætur eru ekki teknar upp geta þær valdið annars konar ójafnvægi og geta leitt af sér meira langvarandi vandamál. Eða þær geta leitt til ótta eða einhvers konar hindrana innra með okkur sem koma í veg fyrir að við getum verið alveg til staðar og notið lífsins. Hugleiðsla og jóga nidra hjálpa huganum að sleppa fortíðinni og um leið ímyndaðri framtíð. Nýleg rannsókn á jóga nidra sýndi jákvæð áhrif á fólk sem hafði lent í áföllum, sérstaklega áfallasttreitu (PTSD), og sömuleiðis við þunglyndi, kvíða, svefnleysi og krónískum sársauka. Með því að færa iðkandann inn í ástand þar sem hann er vakandi en um leið með virkar alfa bylgjur (slökunarbylgjur) og þeta bylgjur (draumbylgjur), fær iðkandinn tækifæri til að mæta minningunum í slökunarástandi og sleppa þeim.

Að halda áfram eftir áföll Eitt af lykilstigum í jóga nidra er kallað “Sankalpa” eða meðvituð endurtekning jákvæðrar staðhæfingar eða ásetnings þar sem hugurinn er í slöku og móttækilegu ástandi. Hugur okkar býr yfir eiginleika sem fær hann til að benda á allt sem getur skaðað okkur og halda okkur þannig öruggum. Eftir áföll er taugakerfið í uppspenntu ástandi og við það bætist að hugur okkar leitar stöðugt eftir mögulegum hættum. Margt sem hugurinn upplifir sem hættu er það ekki í raun. Þetta er oft orsökin að kvíða og þunglyndi sem eru algeng einkenni eftir áföll. Vitnið sem var nefnt hér að ofan er mikilvægur þáttur í að hjálpa okkur að sjá hlutina í stærra samhengi. Auk þess getum við “gróðursett” jákvæðan ásetning í vitund okkar í jóga nidra. Þessi ásetningur er eitthvað sem við tengjum við sem við viljum sjá vaxa og blómstra í lífi okkar.

Við þurfum ekki að lifa við króníska streitu eða sitja uppi með afleiðingar erfiðra aðstæðna þó við lendum í langvarandi álagi eða áfalli. Jógaiðkun er mjög gagnleg leið til að gera okkur hæfari til að takast á við það sem lífið færir okkur og muna að við erum ekki áföllin okkar, álagið eða fortíðin. Jóga og jóga nidra getur hjálpað okkur við að virkja slökunarviðbragðið þegar við lifum við álag, þjálfa með okkur hæfileikann til aðv era vitni í lífi okkar og velja viðbrögðin, að halda jafnvægi. Að heila fótspor áfalla í lífi okkar og skapa von fyrir jákvæða og gefandi framtíð."24 views0 comments

Recent Posts

See All

Comentários


bottom of page