Hormónajóga er frábært tæki. Ég get ekki lofað nógsamlega reglulega ástundun en ég finn sjálf, þó svo að ég sé búin að gera æfingarnar í nokkur ár, muninn á mér ef ég sleppi því að gera þær.
Ég geri æfingarnar minnst 5 sinnum í viku og alltaf á morgnana. Ég bjó mér til ákveðna rútínu í kringum æfingarnar sem er mjög gott. Á sama hátt er gott að búa sér til rútínu á kvöldin áður en gengið er til náða. Rútínan er góð en hið óvænta, (lesist Esja, hundurinn minn - sjá myndir hér neðar) er líka gott - og skemmtilegt.
Ég byrja alltaf daginn á að nota tungusköfu. Fyrir mér er það jafn eðlilegt og að bursta tennurnar. Yfir nóttina safnast efni (eiturefni) á tunguna sem geta ýtt undir veikindi og/eða sýkingar sem ég fjarlægi með sköfunni. Tungan segir okkur ýmislegt um heilsufarið og það að hreinsa hana er ævaforn ayurvedísk iðja.
Síðan dreg ég jógafötin mín upp úr jógafatakörfunni, opna gluggann í herberginu þar sem ég geri hormónajógaæfingarnar og lofta út. Síðan fer ég fram í eldhús. Ég byrja á því að hreinsa nefið með Neti pot. Helli volgu saltvatninu í gegnum aðra nösina og út um hina og hreinsa þannig nefgöngin og nærliggjandi svæði í höfðinu.
Eftir það drekk ég tvö glös af vatni. Ég stilli mér upp við eldhúsgluggann sem snýr í austur, sé fyrir mér sólina koma upp og orkuna frá sólinni fylla glasið. Ég drekk það meðvitað og nýt hvers sopa. Finn orkuna flæða um hreinan líkamann.
Síðan fer ég á dýnuna. Anda langan andardrátt og lyfti höndunum upp til himins. Set hendurnar niður fyrir framan andlitið, brjóstið og kviðinn og anda rólega frá mér. Finn fyrir orkunni í kringum mig. Geri þetta tvisvar til þrisvar sinnum til að stilla mig af og svo byrja ég. Fyrsta æfingin í upphitunaræfingunum, hendur upp og niður með sjö bastrikum og ég finn hvernig ég fyllist orku um leið.
Ég klára æfingarnar á innan við 35 mínútum. Nýt hverrar mínútu og hvers andardráttar. Hver andardráttur í jóga nidra hlutanum verður gulls ígildi og samræming orkunnar í lokin og einn langur andardráttur er á við nokkurra mínútna Savasana. Ég stend upp, klár í daginn og ég veit að hann verður góður.
Dagarnir eru alltaf betri þegar ég geri æfingarnar, fyrir mig og fólkið í kringum mig. Ég er í góðu jafnvægi, er jákvæð, skrokkurinn hlýðir mér í einu og öllu og mér finnst ég geisla af heilbrigði. Þegar mér finnst ég geisla af heilbrigði þá geisla ég af heilbrigði.
Comments