top of page
Search

Rakel, af hverju hormónajóga?

Ég hef lengi verið sérleg áhugamanneskja um breytingaskeiðið. 45 ára gömul fór ég til kvensjúkdómalæknis til fá upplýsingar um hvernig ég gæti best undirbúið mig fyrir það. Ég hafði heyrt að konur færu oft í gegnum breytingaskeiðið á sama hátt og mæður þeirra en mín var dáin svo ég gat ekki spurt. Lækninum fannst þetta nú óþarfa fyrirhyggja og áhyggjur og gaf óbeint í skyn að það væri nú óþarfi að reyna að fara yfir brúna löngu áður en ég kæmi að henni. Var það virkilega svo að ég gæti á engan hátt undirbúið mig undir breytingaskeiðið! Endalausar hryllingssögur og engin tæki til að grípa í - nema hormónalyf, sem ég vildi komast hjá.

Og ég sem var ákveðin í að gera þetta að besta tímabili lífs míns!


Heilbrigður lífsstíll

Eitt vissi ég þó að myndi hjálpa og það var það að lifa sem heilbrigðustu lífi. Ég hafði stundað hatha jóga reglulega í mörg ár og borðaði tiltölulega hollt og datt í hug, um það leiti sem ég byrjaði á breytingaskeiðinu 51 árs, að hefja undirbúning að bloggsíðu um breytingaskeiðið þar sem ég gæti miðlað fróðleik til kvenna í minni stöðu. Ég ætlaði að töfra fram rétti úr hráefnum sem væru holl og góð fyrir konur á breytingaskeiðinu og fá Thomas, manninn minn sem er ljósmyndari, til að taka myndir af réttunum. Auk þess ætlaði ég að miðla ýmsum rannsóknum og öðrum fróðleik um ýmislegt sem tengdist breytingaskeiðinu og hvernig best væri að tækla það. Í miðju þessu ferli frétti ég af Dinah Rodrigues. Mjög svo áhugaverðri, 92 ára gamalli brasilískri konu, sem hafði sett saman ákveðna æfingaröð til að örva hormónabúskap líkamans sem hentaði konum á breytingaskeiði sérlega vel. Ástæða þess að við fáum einkenni breytingaskeiðsins er sú að magn estrógens í líkamanum byrjar að falla upp úr 45 ára aldrinum. Það er þetta fall sem veldur einkennunum. Ef við náum að viðhalda hormónabúskapnum þá sleppum við við fjölda þessara einkenna eða náum að draga verulega úr þeim. Þess vegna er best að byrja æfingarnar í kringum 45 ára aldurinn.

Ég sá á netinu að umrædd Dinah væri væntanleg til Þýskalands til að mennta kennara í hormónajóga svo ég dreif í að skrá mig og var farin út nokkrum vikum síðar.

Ég vissi um leið að þetta var það sem ég leitaði að.


Einkennin mín

Ég var farin að finna fyrir ýmsum einkennum breytingaskeiðsins. Helst þó pirringi, óróa, þurrk í leggöngum, minnkandi kynhvöt, tilfinningalegu ójafnvægi, hitakófum og sterkum höfuðverk, aðallega vinstra megin í höfðinu. Þessi höfuðverkur olli mér áhyggjum. Það miklum að ég sá ástæðu til að fara til læknis sem sendi mig í myndatöku. Þar var ekkert að sjá og ekkert hægt að gera þannig að ég hélt áfram að skófla í mig verkjatöflum. Það var ekki fyrr en ég fór að þýða bók Dinah Rodrigues um hormónajóga að ég áttaði mig á því að höfuðverkur og mígreni geta verið ein af fjölmörgum einkennum breytingaskeiðsins. Hefði ég vitað þetta þá hefði ég kannski verið aðeins rólegri og ekki dottið strax í þann gír að halda að þessi höfuðverkur væri örugglega eitthvað hræðilegt og hættulegt. Að sjálfsögðu á að leita læknis ef maður hefur áhyggjur en oft er það óvissan og skortur á þekkingu sem magnar vanlíðanina og gerir málið enn erfiðara en það er.


Regluleg ástundun

Eftir að hafa stundað hormónajóga reglulega í tvö ár get ég talið á fingrum annarrar handar hversu oft hef fengið höfuðverk. Verkjatöflur teljast nú munaðarvara og svefntöflur endrum og sinnum óþarfar en eitt af því fyrsta sem við finnum fyrir þegar við förum að stunda hormónajóga er bættur svefn. Góður svefn er gulls í gildi og strax á fyrstu dögunum förum við að sofa betur. Ég held mér hraustri og í góðu jafnvægi með reglulegri ástundun og ég sef eins og steinn - á hverri nóttu. Kynlífið verður líka mun betra. Kynhvötin eykst og þessi hvimleiði þurrkur sem við finnum flest allar fyrir í leggöngunum er úr sögunni. Æfingarnar eru orkugefandi og þar sem við gerum þær á morgnana þá mætum við hlaðnar orku út í hversdaginn.

Lífið fær einfaldlega nýjan lit.


Hefði hann nú bara

Hefði læknirninn vitað af hormónajóga og sagt mér frá því þegar ég leitaði eftir upplýsingum þarna 45 ára hefði ég byrjað að stunda það strax og mætt þessu tímabili, sem við miklum svo fyrir okkur, óhrædd og full sjálfstrausts.

En hormónajóga er ekki bara fyrir konur á breytingaskeiði.

Hefði ég vitað af hormónajóga þegar ég var tilbúin til að eignast barn hefði ég stundað það af krafti en reynslan sýnir að frjósemin eykst með reglulegri ástundun.

Hefði ég vitað af hormónajóga þegar ég var 35 ára hefði ég stundað það til að draga úr fyrirtíðaspennu og ég hefði sagt vinkonum mínum, sem voru með fjölblöðruheilkenni og vægt legslímuflakk, frá.


ÉG HEFÐI SAGT ÖLLUM FRÁ!


246 views0 comments

Recent Posts

See All

Commenti


bottom of page