top of page
Search

Hormónajóga á erindi til okkar allra!

Updated: Oct 19, 2023


Ég heiti Anna Sigurbjörg Gilsdóttir, er 68 ára gömul og hef stundað hormónajóga frá 14.júlí 2019. Ég hef alltaf verið nokkuð dugleg að finna leiðir í lífinu til að efla heilbrigðið og prufað ýmsar leiðir til þess.


Þannig kynntist ég hormónajóga

Um miðjan maí 2019 hitti ég Rakel Fleckenstein Björnsdóttur í heita pottinum á Siglufirði. Hún upplýsti mig um að hún væri að mennta/þjálfa sig upp til að kenna hormónajóga, sagði mér frá Dinah Rodriges og hvað hún stæði fyrir. Einn þáttur í þjálfun Rakelar var að æfa sig á að leiðbeina öðrum og hana vantaði prufuhóp. Þetta vakti áhuga minn og saman ákváðum við að finna hóp innan vinnustaðar míns. Tvö kvöld þá vikuna hittist hópurinn og Rakel gaf okkur leiðbeiningar með heim.


Vanvirkur skjaldkirtill

Ég hef sögu um vanvirkan skjaldkirtil og var á lyfjum. Eftir kynninguna frá Rakel og nokkrar vangaveltur ákvað ég að gera prufu á sjálfri mér. Ég vildi sjá hvort hormónajógað gæti mögulega haft áhrif á skjaldkirtilsgildin mín. Ég hætti á skjaldkirtilslyfinu sem ég var á og beið með að byrja á hormónajóganu. Átta vikum síðar fór ég í blóðprufu, niðurstaðan var eins og við mátti búast, gildi TSH (stýrihormón) var alltof hátt og T4 (skjaldkirtilshormón) of lágt. Eftir það byrjaði ég að stunda hormónajógað.


Frelsi að losna við lyfið

Það sem kom mér skemmtilega á óvart var hversu mikið frelsi það var að hætta á skjaldkirtilslyfinu. Þá uppgötvaði ég að hitaelimentið mitt hafði misst eiginleika sína að tempra hitann og virtist vera orðið fast í ákveðnu fari, alltaf á fullu blasti. Eftir á að hyggja tel ég að ákveðin einkenni sem ég átti til að fá í miklum hitum, hafi átt rót sína að rekja til lyfjanna. Einkennin gátu verið bólgur og próteinbjúgur.


Líkaminn tók stjórnina á stuttum tíma

Þegar líkaminn var búinn að taka stjórnina, sem tók ekki mjög langan tíma, fór ég að upplifa kulda af og til, sem ég tók fagnandi á móti. Ég vil taka það fram að ég hef alltaf verið heitfeng og hef örugglega verið algjörlega óþolandi með hversu heitt mér gat orðið öllum stundum. Sólarlandaferðir! þær á ég sjaldnast uppástungu á, og ef ég slysast þangað eyði ég mestum tíma mínum í „köldum sjó eða sundlaug“.


Einkenni tíðahvarfa hverfa

Ég er ekki í nokkrum vafa um að það að efla markvisst hormónabúskapinn hefur áhrif á fjölmarga aðra þætti líkamsstarfseminnar. Líkaminn er ein heild og mismunandi starfsemi hans hefur áhrif hvað á annað. Ég hef ekki oft sleppt æfingum, en hef tekið pásur tímabundið (ekki endilega planað). Bæði reglubundin ástundun og pásur hafa áhrif á mig. Það hefur verið mjög upplýsandi að skynja líðanina á tímabilunum þegar ég hef sleppt hormónajóganu. Þegar nokkrir dagar eru liðnir frá síðustu ástundun fer að bera á auknum tíðarhvarfseinkennum, sem hverfa þegar ég tek upp þráðinn aftur. Sú reynsla segir meira en mörg orð og staðfestir fyrir mér að kerfið virkar!


Blessuð vísindin

Það væri mjög áhugavert ef einhver myndi rannsaka áhrif hormónajóga á hormónabúskapinn. Það er hægt að halda áfram að segja reynslusögur eins og mína, en því miður þá telja þær ekkert í heimi vísindanna. Að ég tali nú ekki um þær sögur sem ungar konur eru að koma með varðandi frjósemi, hversu dýrmætar upplýsingar gætu það orðið!


Að lokum vil ég þakka Rakel og Dinah kærlega fyrir að koma með hormónajóga til okkar kvenna. Kerfið á erindi til okkar allra.


Takk fyrir mig. Anna S. Gilsdóttir

16 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page