top of page
Search

Fann gleðina í hormónajóga



Fyrir rétt rúmu ári, nánar tiltekið í júlí 2019, tók blaðakonan Sigríður Inga Sigurðardóttir viðtal við Rakel hormónajógakennara fyrir hið fallega og góða blað, Í boði náttúrunnar. Fann gleðina í hormónajóga var yfirskrift viðtalsins. Forsíðumyndin er mynd frá blaðinu en myndin af Rakel og Dinah er viðbót og er í einkaeigu.


Við endurbirtum viðtalið hér á hormonajoga.is enda umræðuefnið tímalaust og alltaf viðeigandi.


Rakel Fleckenstein Björnsdóttir vildi leita náttúrulegra leiða til að takast á við breytingaskeiðið þegar hún sigldi inn í það tímabil. Hún komst í kynni við hormónajóga og fann strax að það hafði góð líkamleg og andleg áhrif á sig. Rakel er fyrst Íslendinga til að verða hormónajógakennari og hefur jafnframt þýtt bók um þetta sérstaka jóga.

Hormónajóga er nýjung hér á landi en um er að ræða náttúrulega leið til að endurvekja hormónabúskap líkamans. Það er hugsað sérstaklega fyrir konur sem finna fyrir einkennum breytingaskeiðisins, en þau geta m.a. verið hitakóf, þreyta, svefntruflanir og mígreni, og gera jafnan vart við sig upp úr miðjum fimmtugsaldri. Upphafskona hormónajóga er Dinah Rodrigues, brasilískur sálfræðingur og jógakennari, en hún byggir það á áratugareynslu af jógaiðkun, kennslu og rannsóknum tengdum lífeðlisfræði.

„Mig langaði til að finna mín leið til að takast á við breytingaskeiðið þegar ég byrjaði að finna fyrir einkennum þess. Ég var hvorki kvíðin né hrædd við þetta tímabil en hafði ekki áhuga á að grípa strax í pilluboxið, eins og oft vill verða. Ég heyrði fyrst af hormónajóga í gegnum þýska vinkonu mína, sem er læknir, og hafði áhuga á að fræðast meira um það. Úr varð að ég ákvað að fara til Þýskalands á námskeið hjá Dinah Rodrigues. Hún er mjög vinsæl í Þýskalandi, enda leita þýskar konur gjarnan náttúrulegra leiða þegar kemur að heilsunni. Þá er hún vel þekkt á Ítalíu, Frakklandi og Tékklandi og víðar. Dinah er orðin 92 ára, heldur sér í ótrúlega góðu formi, býr í Brasilíu og ferðast reglulega til Mið-Evrópu,“ segir Rakel brosandi. Námskeiðið stóðst allar hennar væntingar og lauk með því að hún fékk réttindi til að kenna hormónajóga, og er sú fyrsta til þess hér á landi.


Þegar Rakel er beðin um að lýsa hormónajóga nánar segir hún að það samanstandi af sérstakri æfingaröð sem tekur um hálftíma að gera. „Æfingarnar eru ekki flóknar en nauðsynlegt er að gera þær reglulega og til þess þarf bæði þolgæði og úthald. Ég geri hormónajógaæfingar á hverjum morgni og veit að þá mæti ég deginum með gleði. Þetta eru mjúkar jógaæfingar sem hjálpa til við að örva framleiðslu hormóna í líkamanum. Inn í þær fléttast kröftugar öndunaræfingar (pranayama), líkamsstöður (asanas) og tíbetsk orkutækni. Æfingarnar örva eggjastokkana og lögð er áhersla á að beina athyglinni að þeim líffærum sem unnið er með hverju sinni og síðan endað á slökun. Þannig dregur úr margvíslegum óþægindum sem gjarnan eru fylgifiskar breytingaskeiðisins. Æfingarnar hafa líka reynst vel konum sem stríða við ófrjósemi. Með mér á námskeiði var kona sem var þangað komin gagngert því hún hafði heyrt að þessi aðferð gæti aukið frjósemi. Hún hafði lengi reynt að verða ófrísk og búin að reyna margt, og nú hefur hún eignast barn. Mér skilst að hormónajógabörnin séu orðin nokkuð mörg.“

Rakel bendir á að hormónajóga sé frábrugðið öðru jóga á margan hátt. „Það stefnir að því að laga og breyta ákveðnu líkamsástandi. Dinah mælist til þess að konur láti mæla hormónabúskapinn hjá sér þegar þær byrja að stunda hormónajóga og fylgist með hvernig hann þróast í framhaldinu. Það mælist oftar en ekki marktækur munur frá því að konur byrja að stunda hormónajóga og þar til þær hafa gert æfingarnar í fjóra til fimm mánuði. Það hefur því miður reynst fremur erfitt að fá slíkar mælingar hér á landi en mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að konur fái að vita hvar þær eru staddar í þessu ferli. Stærsta breytingin sem ég fann eftir að ég byrjaði að gera æfingarnar er að ég losnaði við þrálátan höfuðverk. Ég fékk iðulega sáran verk vinstra megin í höfuðið, sem olli mér mikilli vanlíðan, og ég var farin að ímynda mér allt hið versta. Þrátt fyrir rannsóknir og myndatökur kom ekki í ljós hvað olli honum. Núna veit ég að höfuðverkur af þessu tagi er eitt af einkennum breytingaskeiðisins. Þau geta verið svo ótrúlega mörg, fyrir utan hitakóf og tilfinningasveiflur, sem flestar konur þekkja,“ segir Rakel.


Hún hefur þegar verið með nokkur grunnnámskeið í hormónajóga fyrir áhugasama nemendur og ætlar að halda bæði grunn- og framhaldsnámskeið í haust. „Þegar ég fór að huga að næstu skrefum ákvað ég að þýða bók Dinah um hormónajóga, og gefa hana út á íslensku. Erfitt hefur verið að nálgast bókina sem kom fyrst út í Brasilíu fyrir tuttugu árum.

Ég er ekki ókunn bókageiranum og hef áður þýtt tvær bækur, Þarmar með sjarma og Leyndarmál húðarinnar. Ég lærði heilmikið í viðbót við að þýða bókina, sem heitir Hormónajóga – Leið til að endurvekja hormónabúskap þinn. Hún kom út í vor (2019) og Dinah kom í heimsókn hingað til lands af því tilefni,“ segir Rakel glöð í bragði en með þeim hefur myndast góður vinskapur.


Hún segist ætla að halda áfram að stunda hormónajóga svo lengi sem henni endist líf og heilsa. „Við lifum svo lengi í dag og hver veit nema ég verði 92 ára eins og Dinah? Ég veit ekki hversu lengi breytingaskeiðið stendur yfir en ég finn að æfingarnar gera mér rosalega gott, ég tek engin lyf og ég vil halda því þannig sem lengst.“

KVÓT:

Mig langaði til að finna mína leið til að takast á við breytingaskeiðið þegar ég byrjaði að finna fyrir einkennum þess. Ég var hvorki kvíðin né hrædd við þetta tímabil en hafði ekki áhuga á að grípa strax í pilluboxið, eins og oft vill verða.

Nánar má fræðast um hormónajóga á facebook.com/hormonajoga

70 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page