top of page
Search

Góður árangur hvatning til að halda áfram

Updated: Aug 26, 2023


Jónína Magnúsdóttir er 57 ára og býr í Þorlákshöfn. Hún sótti sex vikna byrjendanetnámskeið í hormónajóga í nóvember og desember 2020 og þriggja stunda upprifjunarnámskeið í janúar 2021. Jónína tók æfingarnar strax föstum tökum og æfði sig vel á milli kennslutíma en kennslan fór fram á mánudögum kl. 16:30. Tímarnir voru teknir upp og gátu þátttakendur nýtt sér upptökurnar til að æfa sig á milli tíma í eina viku eða fram að næstu kennslustund.

Netnámskeiðin í hormónajóga á Zoom eru tilkomin vegna covid en allir salir hafa verið meira og minna lokaðir frá því veiran barst hingað til lands í ársbyrjun 2020. Veiruskrattinn hefur fært okkur ýmislegt, flest slæmt en sumt ekki eins slæmt. Eitt af því góða sem hún bar með sér er Zoom netfundabúnaðurinn. Án Zoom hefðum við þurft að loka öllu en með því að tengjast á Zoom í gegnum tölvurnar eða símana heima gátu þátttakendur fylgt fyllstu sóttvarnarreglum og verið í örygginu á eigin heimili. Konur á landsbyggðinni gátu í fyrsta sinn tekið þátt sem er mjög ánægjulegt og það er ljóst að þetta form er komið til að vera. Reynslan hefur nefnilega sýnt að það er ekkert því til fyrirstöðu að kenna hormónajóga í sal og á Zoom á sama tíma.


En aftur að Jónínu.


Jónína byrjaði að gera æfingarnar strax á fyrsta degi byrjendanámskeiðsins og gerði þær síðan nokkuð ört enda full af áhuga og bjartsýni á að þær myndu virka fyrir hana. Nú aðeins tveimur mánuðum síðar finnur hún að gæði svefns hafa aukist til muna og að dregið hefur verulega úr hitakófum. (Bættur svefn og minni hitakóf eru einmitt fyrstu batamerkin þegar ástundunin er orðin regluleg. Önnur einkenni breytingaskeiðsins lagast síðan koll af kolli. Dinah Rodrigues segir að á þriðja mánuði byrji að draga úr þunglyndi ef ástundunin er regluleg).


Jónína segir að þessi góði árangur sé hvatning fyrir hana til að gera æfingaröðina 4-6 sinnum í viku en hún er sannfærð um að frekari ástundun sé ávísun á frekari árangur.

Við þökkum Jónínu fyrir falleg orð en hún er þakklát fyrir góða kennslu og hrósar námskeiðinu í hástert.



173 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page