top of page
Search

Sleppir helst ekki úr æfingu. „Mér líður frábærlega“

Updated: Aug 26, 2023


Elín Gísladóttir, Ella, er ein þeirra kvenna sem keypti sér hormónajógabókina og byrjaði að gera æfingarnar heima hjá sér í sumar. Hún hafði samband við mig 28. ágúst og sagðist finna mikinn mun á sér, bæði andlega og líkamlega. Það var enginn vafi í hennar huga að þetta væri hormónajógaæfingunum að þakka. Ég bað Ellu um að skrifa frásögn sína niður sem hún og gerði og er hún nú birt hér á blogginu, með góðfúsleglegu leyfi Ellu, tæpum þremur mánuðum síðar en Ella fylgir henni eftir með annarri magnaðri reynslusögu dagsettri 11. nóvember 2020 undir fyrirsögninni "Venjulega veslast eggjastokkar upp, en ekki mínir" og birtist hér í annarri bloggfærslu.


En hér er fyrri frásögnin, dagsett 28. ágúst 2020 og hljóðar svo:


„Nú er ég búin að gera æfingar í 44 daga síðan 13. júlí að undanskildum þremur dögum. Ég vil helst samt ekki sleppa þeim. Í stuttu máli sagt: „mér líður frábærlega“.


Í hverju felst það? Byrjum á svefninum. Frá því sennilega 2011-2012 hef ég verið að vakna upp á nóttunni og liggja vakandi í tvo tíma og sofna svo aftur undir morgun. Það hafði áhrif á líf mitt en ég leysti vökurnar með því að lesa, bera út blöðin eða fara út að hlaupa ef svo bar undir og koma inn og freista þess að sofna aftur. Auðvitað bitnaði það á lífi mínu á daginn, ég var þreytt, við það að sofna á fundum, við vinnuna mína og svo var minnið allt í steik.


Núna sef ég eins og steinn alla nóttina, ef ég vakna til að fara á klósett er ég fljót að sofna aftur svona alla jafna. Minnið er miklu mun betra og dagþreytan horfin sem sýnir hversu dýrmætt það er að fá góðan nætursvefn.


Ég finn það alltaf betur og betur hversu góðar þessar æfingar eru fyrir mig og minn líkama. Áður en ég byrjaði að stunda þær var ég að glíma við hlaupameiðsl. Núna er ég farin að sjá árangur ástundunar í því að geta hlaupið aftur nánast verkjalaus. Það þakka ég teygjunum sem felast í þeim.


Það er dýrmætt að geta verið eins og maður á að sér að vera. Engin hitakóf, enginn leggangaþurrkur, skapið mjög gott, enginn pirringur, húð, hár og neglur í mjög góðu lagi og fótakuldi í lágmarki. Einnig hefur grindarbotninn styrkst töluvert (á reyndar eftir að prófa að sippa 😊). Grindarbotnsæfingar voru alltaf á planinu en vildu gleymast og ekki vera gerðar. Með æfingunum koma þær að sjálfu sér. Höfuðverkur sem var farinn að gera vart við sig (hef aldrei glímt við höfuðverki) er ekki til staðar lengur. Var alltaf slæm af einhverjum verkjum í stóru tá á hægri fæti. Þeir verkir eru farnir. Farið var að bera á miklu tannkuli þegar síst skyldi, en hverju sem það er að þakka þá fæ ég það örsjaldan núna. Ég er í miklu meira jafnvægi og meiri ró yfir mér en var. Ég er afslappaðri yfir hlutunum og tek lífinu allt öðruvísi en ég gerði. Að ekki sé talað um þá gleði og vellíðan sem ég finn að ég bý yfir. Tinnitusinn (eyrnasuðið) er reyndar mjög áberandi þegar ég geri Viparita enda miklir kraftar þar að baki. Hann er alltaf til staðar á daginn, stundum lágvær en stundum háværari.


Ég er búin að kveikja áhuga hjá nokkrum konum sem ég hef spjallað við um hormónajóga. Konur tala ekki um breytingaskeiðið. Þær eru alla jafna feimnar við það sem ég skil mæta vel. Ég væri þar ef ég væri ekki að gera þessar æfingar og finna hversu mikið þær hjálpa mér."


Með kærleikskveðju,

Namaste,

Ella
238 views0 comments

Recent Posts

See All

Comentários


bottom of page